Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þar féll viðskiptaráðherra af stalli!

Ég hlustaði á útvarpsviðtal við Gylfa viðskiptaráðherra. Embættislegur útskýrði hann að greiðsluverkfall væri "engin lausn", eingöngu "atvinnuefling innheimtumönnum og lögmönnum". Þar hrundi Gylfi af mínum stalli og fékk á sig ómengaðan svip embættismanns, sem greinilega þarf ekki að taka ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut.

Mér er til efs að nokkur líti á greiðsluverkfall sem "lausn". Greiðsluverkfall er viðbragð þess fólks, sem vill ekki sjá að fjölskylda þess flosni upp afþví peningar þess fara í að borga afleiðingar útrásarveislu og áhættufjárfestingar. Afleiðingar, sem með réttu er annarra að taka ábyrgð á.

Fjöldi fólks sér fram á verulegan vanda að láta enda ná saman, tryggja samheldni fjölskyldu sinnar, óttast atvinnuleysi - eða er jafnvel þegar orðið atvinnulaust. Örþrifaráð þess sem vill þó reyna að halda höfði og heiðri gagnvart sínum nánustu - því það er eðli greiðsluverkfalls - verður í hálfkæringshætti viðskiptaráðherra að atvinnueflingu lögmanna".

Auðvitað er þetta rétt hjá Gylfa - ef svo fer að stjórnvöld aðhafist ekkert. ef svo fer að engin stjórnmálamaður þori að stjórna og stýra okkur þeim vanda sem bankamenn, áhættufjárfestar og - vel að merkja - embættismenn komu okkur í. En núna vantar okkur sárlega stjórnmálamenn, sem þora að taka af skarið.

Það er skömm af Gylfa viðskiptaráðherra að lyfta fram þessu sjónarhorni þegar fólk sér ekki fram á að geta staðið í skilum af því lánsupphæðir hafa hækkað svo að þúsundir manna fá engum björgum við komið. Það er vonandi að ný stjórn verði skipuð raunverulegum stjórnmálamönnum, sem þora að taka á málum útfrá hagsmunum og tilfinningum almennings.

Útrásin var kannski veisla áhættufjárfestanna, en kreppan er vandi heimilanna - feðra, mæðra og barna þessa lands. Það á að vera það sjónarmið sem ráðherrar hafa.


mbl.is Furða sig á ummælum ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska efnahagsundrið (líkan)

Íslenska efnahagsundrið (líkan)

 

Herra forsætis, Haarde,

tók handfylli sína af gögnum

og horfði dulráðum augum

á útkomu og tölur:

 

51 x 19 + 18 - 102

Frá kredit till debet

virðist drjúgur spölur!

 

Sé eignadreifingu

í lágmarki haldið

er mín hugmynd sú

að halli á ríkisbókhaldið.

 

Herra forsætis, Haarde,

tók handfylli sína af gögnum

og búsáhaldabyltinguna

bar að, sem sagði:

 

Herra forsætis? Haarde??

Aldrei meir! Aldrei meir!


Afsakanir, já!

Geir að sjentilmanna sið

Sjálfstæðis talaði á fundi:

Ágætu félagar! Afsakið!

Eitthvað var það, sem hrundi.

Heilsaði flokknum, en hélt svo á brott

meðan hnípin þjóðin stundi.


Löglegt?

Það er athyglivert að þátttaka í framboði stjórnmálaflokks skuli talið jafngilda uppsögn hjá forseta ASÍ. Er það yfir höfuð löglegt að krefjast þess að nokkur maður segi starfi sínu lausu vegna þess að hann sé í framboði??
mbl.is Leit á þátttöku sem uppsögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HB Grandi kann að bregðast við

Forsvarsmenn HB Granda eiga heiður skilið fyrir að bregðast vafningalaust við þeirri umræðu, sem upp kom vegna greiðslu arðs til eigenda í skugga þess samkomulags sem gert hafði verið um að fresta áður umsömdum launahækkunum. Þetta er hárrétt við brugðist og sýnir að forsvarsmenn fyrirtækisins átta sig á því í hvers konar samfélagsumhverfi þeir eru staddir í. Þetta heitir á mannamáli að taka ábyrgð.

Nú þurfa forsvarsmenn HB Granda bara að sjá svo um að talsmaður samtaka þeirra, Samtaka Atvinnulífsins, valdi ekki þeim og öðrum fyrirtækjum þessa lands meiri skaða með bulli sínu í fjölmiðla.


mbl.is HB Grandi hækkar laun starfsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilhjálmur Egilsson í bullandi afneitun

Hvað er þessi Vilhjálmur Egilsson framkvæmdstjóri Samtaka Atvinnulífisins að vilja uppá dekk? Ég teldi farsælast fyrir þessi ágætu samtök að finna sér annan talsmann, sem geti sagt eitthvað annað um útspil forsætisráðherra en að hún sé að leika sér. Leika sér??? Að hún sé að sverta atvinnufyrirtæki landsins??? Halló!

Hvar er dómgreind Vilhjálms? Þegar talað er um siðleysi fyrirtækja, þá er ekki endilega verið að segja að þau brjóti lög. En framkoma þeirra stingur í stúf við almennt velsæmi, og það færi óneitanlega vel á því að talsmaður Samtaka Atvinnulífsins sýndi að hann kunni með slík hugtök að fara. Auðvitað er ekkert ólöglegt við það að semja um að greiða ekki umsamdar kauphækkanir vegna efnahagsástandsins, það er bara allt í lagi, á meðan samkomulag ríkir um það. En að HB Grandi greiði á sama tíma eigendum sínum arð, það er ekki alveg í samræmi við samkomulagið við launþegana, því þá er verið að gera mun á Jóni og séra Jóni, svo einfalt er það.

Einhver ábyrgur maður innan Samtaka Atvinnulífsins þarf að kenna Vilhjálmi Egilssyni þetta. Lög er eitt, siðferði annað.

Hvað kom svo ekki á daginn? Stjórn HB Granda sá að sér og greiðir einnig út þær launahækkanir sem búið var að semja um. Það þýðir að það er allt í lagi með boðleiðirnar milli forsætisráðherra og atvinnulífsins. Það er bara talsmaður Samtaka Atvinnulífsins sem er í bullandi afneitun.

Touché!


mbl.is Atvinnurekendur reiðir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir fyrirmynd norrænna vinstriflokka?

Sænska síðdegisblaðið Aftonbladet skrifar í leiðara í dag, mánudaginn 23 febrúar, að vinstriflokkum á Norðurlöndum væri hollt að líta til Vintri grænna á Íslandi, sem hafa afneitað óheftum kapítalisma og hyggi á velferðarmódel eftir klassísku, skandinavísku sniði. Það má greina hjá leiðarahöfundinum, Åsa Petersen, nokkurn nostalgíutón, og sennilegt að henni finnist öldin önnur og nýkapítalískari en var í Svíþjóð.

Annars geta þeir, sem vilja, nálgast leiðarann eftir þessari slóð:

http://www.aftonbladet.se/ledare/internationellt/article4478973.ab


Á að kjósa UM eitthvað?

Mér þykir einkennilegt, hvernig tíundað er í smáatriðum hvaða þingmenn og wannabees ætli að bjóða sig fram eða ekki.

Ég spyr: who cares? - meðan ekki er sagt orð um hver stefna þessa ágæta fólks er, hverju það vill koma leiðar og fá áorkað.

Helsta stefna sjálfstæðismanna virðist vera að eyða ekki of miklum pening í prófkjörsslaginn, svo það særi ekki velsæmi kjósenda. Gott og vel.

Það hefði verið hið besta mál, ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft það stefnumið síðustu átján árin - að særa ekki velsæmi kjósenda. En betra er seint um rassinn gripið en ekki.

Eftir stendur, að mér leikur forvitni á að vita UM hvað er verið að kjósa.


mbl.is Flokkarnir velja í forystusveitirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Eiður að hugsa?

Á mánudaginn var (16 febrúar sl.) skrifar Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra, grein í Morgunblaðið, þar sem han fullyrðir að forseti Íslands hafi "farið á svig við sannleikann" um orð sín á fundi með erlendum sendiherrum, sem frægt er orðið. Málið komst upp vegna þess að skýrsla norska sendiherrans á Íslandi hafði á einhvern hátt ratað á síður norska blaðsins Klassekampen.

Eiður kveðst ekki hafa lesið skýrslu norska sendiherrans, en segist hafa lesið skýrslu annars, ónafngreinds sendiherra af fundinum fræga. Sú skýrsla staðfesti skýrslu norska sendiherrans og frásögn Klassekampens. Auk þess sem Eiður sjálfur viti til þess að Ólafur hafi nú ekki alltaf farið satt og rétt með, þegar báðir sátu á Alþingi.

Nú kann að vera að ég sjái hlutina í eitthvað brengluðu ljósi, en ég hef alla tíð litið svo á, að sendiherra - fyrrverandi eða ekki - hafi þá frumskyldu að vernda hagsmuni lands síns. Þar með talið að bera ekki út staðhæfingar á borð við að forseti landsins fari með lygar. Ef Eiði Guðnasyni þykir hann réttur maður að atyrða forsetann væri kannski eðlilegast að hann, stöðu sinnar vegnar, gerði það við forsetann sjálfan undir fjögur augu. Annað samrýmist illa sendiherrahlutverkinu.

Hitt þykir mér líka einkennilegt að skýrsla norska sendiherrans og frásögn Klassekampens skuli lögð að jöfnu og í frásögn Eiðs nánast hvort sanna hitt. Það hljóta að vera nýmæli, að Eiður Guðnason geri Klassekampen svo hátt undir höfði - hvað svo sem segja má að öðru leyti sannleiksgildi frásagnar blaðsins af nefndum fundi.

Það má reyndar hér og að lokum vitna til ágæts kvæðis Þórarins Eldjárn um Ara fróða, en því lýkur svona: "Við höfum það heldur sem sannara reynist / ef hvorugt er satt."


mbl.is Forsetaviðtal olli skjálfta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymum ekki unga fólkinu

Las baksíðufrétt í mánudagsblaði Moggans (16. febrúar sl.) um unga fólkið, sem hefur þungar áhyggjur af efnahagsástandinu og þykir lítið fara fyrir því að við það sé talað. Hildur Inga Sverrisdóttir, 17 ára, bendir réttilega á að stjórnvöld verði að átta sig á að það er þetta unga fólk, sem situr í súpunni, ef teknar eru rangar ákvarðanir í efnahagsmálum núna. Lítið sé gert til að tala við unga fólkið, umræðu sé beint til fólks á kosningaaldri og fréttaflutningur einatt í æsifregnastíl.
Hildur segir ennfremur og byggir það vafalítið á vitnisburði jafnaldra sinna, að foreldrar séu margir hverjir ekki stakk búnir til að hjálpa börnum sínum að greiða úr flóknum spurningum vegna kvíða fyrir eigin afkomu. Aðrir aðilar verða að koma til, segir hún.
Þetta er auðvitað hárrétt athugað hjá þessari ungu stúlku. Það er full ástæða til að hvetja skólafólk og aðra sem hafa samskipti við ungt fólk, og auðvitað foreldra líka, að reyna eftir mætti að hlúa að þeim og skapa þeim það öryggi sem hægt er í því ástandi sem við búum við.
Stjórnvöld verða líka að taka á því, að hefja upplýsingaþ og viðræðustarf meðal ungs fólks. Það á ekki bara rétt á því, heldur er það hugsanlega ein markvissasta leiðin úr kreppunni.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband