19.2.2009 | 20:22
Menning er aflhvati samfélags
Þetta er hárrétt stefna hjá stjórnvöldum, að fjárfesta í menningarmálum eins og nýju Tónlistarhúsi, til að koma okkur hraðar úr kreppunni. Tónlistarhúsið veitir ekki einasta atvinnutækifæri meðan á byggingu stendur (fyrir nú utan að gæta þess að glutra ekki niður því sem þegar hefur veirð gert), heldur á starfsemi þess frá því það verður opnað, eftir að skapa fjölda atvinnutækifæra, beint og óbeint.
Það er margsýnt að fjárfesting í menningarmannvirkjum og menningarstarfsemi skilar margföldum ágóða til samfélagsins í formi beinna og óbeinna tekna. Evrópskar rannsóknir benda til þess að hver króna sem veitt er til menningarmála skilar fimm aftur i þjóðarbúið innan tilskilins tíma, sem yfirleitt er talinn vera 5-10 ár.
Þetta bendir til þess að Tónlistarhúsið gæti innan tíðar skilað tekjum sem nema allt að 65 milljörðum króna - og er þá bara talinn fjárfestingarkostnaðurinn!
Svo ekki sé minnst á þá jákvæðu strauma sem bygging og starfsemi Tónlistarhúss á eftir að verða fyrir þjóðina alla.
Allt að 600 störf vegna framkvæmda við Tónlistarhús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:27 | Facebook
Athugasemdir
Já en við höfum núna ekki pening til að reka ellieimilin. Hvar sérð þú að peningur til að reka Tónlistarhús fynnist.
Ég persónulega hef ekki fengið útborgað síðustu 5 mán. Skuldunautar fyrirtækisins sem ég vinn/vann hjá geta ekki borgað. Og við héldum of lengi í vonina. Það er búin að vera kreppa í mínu fagi síðan eftir síðustu páska.
Mér finnst það vera allt of margir sem ekki vilja sjá hvar við erum stödd. Og ef svo er þá rötum við aldrei að landi.
Matthildur (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 09:53
Kæra Matthildur.
Þakka þér málefnalega athugasemd. Ég vil þó vara við einu: þú gerir mistökin að bera saman elliheimili og tónlistarhús, sem er ómögulegt í þjóðhagslegu samhengi. Elliheimili er þjónusta sem kostar. Tónlistarhús er fjárfesting sem skilar arði - ef rétt á málum haldið (það er hægt að reka allt með tapi, en það er fremur erfitt að reka elliheimili með ágóða - í besta falli stendur reksturinn undir sér, ef okkur tekst að haga málum þannig að gamla fólkið fær nægan ellilífeyri. En það spil á að enda á núlli.)
Ég harma auðvitað að þú hafir ekki fengið útborgað réttmæt laun. Við flutum öll fremur grandalaus í átt að feigðarósi hvað varðar þessa kreppu; sjálfur tapaði ég allnokkrum milljónum á myntkörfulánum og sit fastur í þeirri súpu þar til ég verð 96 ára gamall.
Ég er sammála þér um að alltof margir sjá ekki hver við erum stödd og hvernig við komum okkur þaðan. En ég er sannfærður um að fjárfesting í menningarmálum verður að vitum sem lýsa okkur leið að landi - það er ekki spurning. Hugleiddu bara sálrænu áhrifin, þegar við stöndum stolt frammi fyrir alheimi með menningarlega heimsviðburði á afrekaskránni. Allir - allt frá dagheimilisbörnum til ellilífeyrisþega, svo ekki sé minnst á hið vinnandi fólk - eiga eftir að njóta góðs af slíkum hughrifum.
Kær kveðja, Jakob
Jakob (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 04:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.