4.5.2009 | 23:57
Þar féll viðskiptaráðherra af stalli!
Ég hlustaði á útvarpsviðtal við Gylfa viðskiptaráðherra. Embættislegur útskýrði hann að greiðsluverkfall væri "engin lausn", eingöngu "atvinnuefling innheimtumönnum og lögmönnum". Þar hrundi Gylfi af mínum stalli og fékk á sig ómengaðan svip embættismanns, sem greinilega þarf ekki að taka ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut.
Mér er til efs að nokkur líti á greiðsluverkfall sem "lausn". Greiðsluverkfall er viðbragð þess fólks, sem vill ekki sjá að fjölskylda þess flosni upp afþví peningar þess fara í að borga afleiðingar útrásarveislu og áhættufjárfestingar. Afleiðingar, sem með réttu er annarra að taka ábyrgð á.
Fjöldi fólks sér fram á verulegan vanda að láta enda ná saman, tryggja samheldni fjölskyldu sinnar, óttast atvinnuleysi - eða er jafnvel þegar orðið atvinnulaust. Örþrifaráð þess sem vill þó reyna að halda höfði og heiðri gagnvart sínum nánustu - því það er eðli greiðsluverkfalls - verður í hálfkæringshætti viðskiptaráðherra að atvinnueflingu lögmanna".
Auðvitað er þetta rétt hjá Gylfa - ef svo fer að stjórnvöld aðhafist ekkert. ef svo fer að engin stjórnmálamaður þori að stjórna og stýra okkur þeim vanda sem bankamenn, áhættufjárfestar og - vel að merkja - embættismenn komu okkur í. En núna vantar okkur sárlega stjórnmálamenn, sem þora að taka af skarið.
Það er skömm af Gylfa viðskiptaráðherra að lyfta fram þessu sjónarhorni þegar fólk sér ekki fram á að geta staðið í skilum af því lánsupphæðir hafa hækkað svo að þúsundir manna fá engum björgum við komið. Það er vonandi að ný stjórn verði skipuð raunverulegum stjórnmálamönnum, sem þora að taka á málum útfrá hagsmunum og tilfinningum almennings.
Útrásin var kannski veisla áhættufjárfestanna, en kreppan er vandi heimilanna - feðra, mæðra og barna þessa lands. Það á að vera það sjónarmið sem ráðherrar hafa.
Furða sig á ummælum ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.