Á að kjósa UM eitthvað?

Mér þykir einkennilegt, hvernig tíundað er í smáatriðum hvaða þingmenn og wannabees ætli að bjóða sig fram eða ekki.

Ég spyr: who cares? - meðan ekki er sagt orð um hver stefna þessa ágæta fólks er, hverju það vill koma leiðar og fá áorkað.

Helsta stefna sjálfstæðismanna virðist vera að eyða ekki of miklum pening í prófkjörsslaginn, svo það særi ekki velsæmi kjósenda. Gott og vel.

Það hefði verið hið besta mál, ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft það stefnumið síðustu átján árin - að særa ekki velsæmi kjósenda. En betra er seint um rassinn gripið en ekki.

Eftir stendur, að mér leikur forvitni á að vita UM hvað er verið að kjósa.


mbl.is Flokkarnir velja í forystusveitirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menning er aflhvati samfélags

Þetta er hárrétt stefna hjá stjórnvöldum, að fjárfesta í menningarmálum eins og nýju Tónlistarhúsi, til að koma okkur hraðar úr kreppunni. Tónlistarhúsið veitir ekki einasta atvinnutækifæri meðan á byggingu stendur (fyrir nú utan að gæta þess að glutra ekki niður því sem þegar hefur veirð gert), heldur á starfsemi þess frá því það verður opnað, eftir að skapa fjölda atvinnutækifæra, beint og óbeint.

Það er margsýnt að fjárfesting í menningarmannvirkjum og menningarstarfsemi skilar margföldum ágóða til samfélagsins í formi beinna og óbeinna tekna. Evrópskar rannsóknir benda til þess að hver króna sem veitt er til menningarmála skilar fimm aftur i þjóðarbúið innan tilskilins tíma, sem yfirleitt er talinn vera 5-10 ár.

Þetta bendir til þess að Tónlistarhúsið gæti innan tíðar skilað tekjum sem nema allt að 65 milljörðum króna - og er þá bara talinn fjárfestingarkostnaðurinn!

Svo ekki sé minnst á þá jákvæðu strauma sem bygging og starfsemi Tónlistarhúss á eftir að verða fyrir þjóðina alla.


mbl.is Allt að 600 störf vegna framkvæmda við Tónlistarhús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt lítið skjal í blýhólkinn

Það varð nokkuð ljóst fljótlega eftir hrun banka og efnahagskerfis, að hættan væri veruleg að hið ókláraða tónlistarhús umbreyttist í minnisvarða um kreppuna.

Óklárað hús hefði orðið minnisvarði um þá kreppu, sem sligaði okkur. Vitnisburður um kreppuna sem okkur tókst ekki að rísa úr. Leiðsögumenn hefðu bent erlendum ferðamönnum á hið ókláraða tónlistarhús sem sönnun þess að dramb er falli næst og ferðamennirnir hefðu borið þann boðskap áfram út um gervallan heim.

Það er þess vegna gott að ríki og borg hafa tekið ákvörðun um að ljúka byggingu Tónlistarhúss. Sú ákvörðun ber vitni ákveðnum metnaði.

En einu fær ákvörðun ríkis og Reykjavíkurborgar ekki breytt. Tónlistarhúsinu bíða trúlega þau örlög að verða að eilífu minnisvarði um kreppuna. Staðsetning hússins, forsaga byggingarinnar og tengslin við bankakerfi og útrás og svo tæmingin voru einfaldlega atriði þess eðlis að ekki verður hjá því komist að Tónlistarhúsið verður ávallt táknmynd kreppunnar.

En verði Tónlistarhúsið klárað verður það, svo lengi sem það stendur, minnisvarði um kreppuna sem okkur tókst að rísa úr og hefja okkur yfir.

Það mætti jafnvel setja eitt lítið skjal um það í blýhólkinn.


mbl.is Tónlistarhúsið fær grænt ljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Eiður að hugsa?

Á mánudaginn var (16 febrúar sl.) skrifar Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra, grein í Morgunblaðið, þar sem han fullyrðir að forseti Íslands hafi "farið á svig við sannleikann" um orð sín á fundi með erlendum sendiherrum, sem frægt er orðið. Málið komst upp vegna þess að skýrsla norska sendiherrans á Íslandi hafði á einhvern hátt ratað á síður norska blaðsins Klassekampen.

Eiður kveðst ekki hafa lesið skýrslu norska sendiherrans, en segist hafa lesið skýrslu annars, ónafngreinds sendiherra af fundinum fræga. Sú skýrsla staðfesti skýrslu norska sendiherrans og frásögn Klassekampens. Auk þess sem Eiður sjálfur viti til þess að Ólafur hafi nú ekki alltaf farið satt og rétt með, þegar báðir sátu á Alþingi.

Nú kann að vera að ég sjái hlutina í eitthvað brengluðu ljósi, en ég hef alla tíð litið svo á, að sendiherra - fyrrverandi eða ekki - hafi þá frumskyldu að vernda hagsmuni lands síns. Þar með talið að bera ekki út staðhæfingar á borð við að forseti landsins fari með lygar. Ef Eiði Guðnasyni þykir hann réttur maður að atyrða forsetann væri kannski eðlilegast að hann, stöðu sinnar vegnar, gerði það við forsetann sjálfan undir fjögur augu. Annað samrýmist illa sendiherrahlutverkinu.

Hitt þykir mér líka einkennilegt að skýrsla norska sendiherrans og frásögn Klassekampens skuli lögð að jöfnu og í frásögn Eiðs nánast hvort sanna hitt. Það hljóta að vera nýmæli, að Eiður Guðnason geri Klassekampen svo hátt undir höfði - hvað svo sem segja má að öðru leyti sannleiksgildi frásagnar blaðsins af nefndum fundi.

Það má reyndar hér og að lokum vitna til ágæts kvæðis Þórarins Eldjárn um Ara fróða, en því lýkur svona: "Við höfum það heldur sem sannara reynist / ef hvorugt er satt."


mbl.is Forsetaviðtal olli skjálfta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samhengi kúgunar og afþreyingar?

Fór í gærkvöldi, þriðjudagskvöldið 17 febrúar, að sjá hina stórmerkilegu mynd Slumdog Millionaire, eða öðru nafni Viltu vinna milljarð? Sögusviðið er fátækrahverfi í Bombay á Indlandi, en söguramminn er hinn vinsæli afþreyingarþáttur Viltu vinna milljarð?, sem virðist hafa verið sýndur í flestum löndum heims.
Aðalpersónan, Jamal, býr við sárustu fátækt og eymd, verður barnungur munaðarlaus og þarf að sjá sjálfum sér farborða ásamt bróður sínum. Hann hefur einn eiginleika sem skilur hann frá öðrum - hann gleymir engu. Líf hans í fátækrahverfinu, skilyrði félagslegrar og efnahagslegrar kúgunar og barátta hans við að halda virðingu sinni þótt hann standi á neðsta þrepi samfélagsstigans er það sem veitir honum svörin við hverri spurningunni á fætur annarri, þegar hann er loks sestur í heita stólinn í sjónvarpsverinu. Þáttastjórnandinn er sleikjulegur náungi og byrjar á því að hæða drenginn unga úr fátækrahverfinu, en eftir því sem honum vegnar betur í keppninni, virðist stjórnandinn einnig skipta um skoðun, en það reynist tálsýn.
Niðurstaða myndarinnar virðist mér vera sú, að forsenda afþreyingar á borð við Viltu vinna milljarð? er einmitt hið stéttskipta samfélag og hið efnhagslega óréttlæti. Hvorugt fær án hins þrifist - sem mætti verða verðugt umhugsunarefni þeim sem stjórna fjölmiðlum hér á landi. Sú afþreying sem viðheldur ráðandi óréttlæti er kannski ekki sú afþreying sem við þörfnumst meðan við erum að koma okkur úr kreppunni?
Það er sterklega gefið í skyn í myndinni með myndskeiðum og sjónarhornum, með öflugri hljóðvinnslu og magnaðri tónlist. En fyrst og fremst er það leikur aðalpersónanna, Jamals, Salim bróður hans og ungu stúlkunnar Latifu sem heillar.
Þetta er mynd sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Auk þess er Bollíwood-stemningin í lokin óborganleg.

Gleymum ekki unga fólkinu

Las baksíðufrétt í mánudagsblaði Moggans (16. febrúar sl.) um unga fólkið, sem hefur þungar áhyggjur af efnahagsástandinu og þykir lítið fara fyrir því að við það sé talað. Hildur Inga Sverrisdóttir, 17 ára, bendir réttilega á að stjórnvöld verði að átta sig á að það er þetta unga fólk, sem situr í súpunni, ef teknar eru rangar ákvarðanir í efnahagsmálum núna. Lítið sé gert til að tala við unga fólkið, umræðu sé beint til fólks á kosningaaldri og fréttaflutningur einatt í æsifregnastíl.
Hildur segir ennfremur og byggir það vafalítið á vitnisburði jafnaldra sinna, að foreldrar séu margir hverjir ekki stakk búnir til að hjálpa börnum sínum að greiða úr flóknum spurningum vegna kvíða fyrir eigin afkomu. Aðrir aðilar verða að koma til, segir hún.
Þetta er auðvitað hárrétt athugað hjá þessari ungu stúlku. Það er full ástæða til að hvetja skólafólk og aðra sem hafa samskipti við ungt fólk, og auðvitað foreldra líka, að reyna eftir mætti að hlúa að þeim og skapa þeim það öryggi sem hægt er í því ástandi sem við búum við.
Stjórnvöld verða líka að taka á því, að hefja upplýsingaþ og viðræðustarf meðal ungs fólks. Það á ekki bara rétt á því, heldur er það hugsanlega ein markvissasta leiðin úr kreppunni.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband