Obama ræktar garðinn sinn!

Það er gleðilegt að frétta að forseti Bandaríkjanna skuli vera byrjaður að rækta garðinn sinn - í bókstaflegum skilningi. Í síðustu viku var tekin fyrsta skóflustungan í 100 fermetra grænmetisgarði við suðurhlið Hvíta Hússins, en þar á að rækta rúmlega hálft hundrað tegunda grænmetis og ávaxta, auk þess sem tvö býflugnabú verða einnig við garðinn.

Það má einnig lesa um þetta framtak Obama-hjónanna hér í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter.  (Reyndar er það forsetafrúin, Michelle Obama, sem virðist vera garðyrkjumeistarinn. Barack er sjálfsagt upptekinn við að spjalla við geimfara og annað þess konar fólk.)

Það má reyndar skjóta því að hér, að á nýafstöðnum landsfundi Vinstri grænna komu fram hugmyndir um að auðvelda fólki hérlendis að rækta garðinn sinn á svipaðan hátt og þau Barack og Michelle og er í raun bráðsnjöll hugmynd fyrir þjóð í kreppu. Nýta garða og opin svæði, byggja ódýr gróðurhús og nýta heita vatnið betur en gert er. Og það sem mest er um vert - nýta mannauðinn og koma sér upp skemmtilegu og nærandi áhugamáli.


mbl.is Obama fær matjurtagarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löglegt?

Það er athyglivert að þátttaka í framboði stjórnmálaflokks skuli talið jafngilda uppsögn hjá forseta ASÍ. Er það yfir höfuð löglegt að krefjast þess að nokkur maður segi starfi sínu lausu vegna þess að hann sé í framboði??
mbl.is Leit á þátttöku sem uppsögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er átt við?

Í umræðu um efnahagsmál hér á landi er mikilvægt að fjölmiðlar vandi sig við fréttaflutninginn.

Hér grunar mig að eitthvað hafi skolast til málfarslega hjá blaðamanni. Það er einatt talað um tugmilljónir, t.d. tugmilljóna skuldir. Það er nokkuð viðráðanleg stærð, sem getur verið einhvers staðar á bilinu 20-90 milljónir.

Milljónatuga skuldir getur aftur á móti verið einkar stjarnfræðilega há upphæð, ákaflega óljós og utan skynsemismarka. Orðið milljónatugur er því orðskrípi sem vönduð blaðamennska getur ekki byggst á.

Hvað þurfa smábátasjómenn mikið til að halda sér á floti?


mbl.is Sitja uppi með milljónatuga skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HB Grandi kann að bregðast við

Forsvarsmenn HB Granda eiga heiður skilið fyrir að bregðast vafningalaust við þeirri umræðu, sem upp kom vegna greiðslu arðs til eigenda í skugga þess samkomulags sem gert hafði verið um að fresta áður umsömdum launahækkunum. Þetta er hárrétt við brugðist og sýnir að forsvarsmenn fyrirtækisins átta sig á því í hvers konar samfélagsumhverfi þeir eru staddir í. Þetta heitir á mannamáli að taka ábyrgð.

Nú þurfa forsvarsmenn HB Granda bara að sjá svo um að talsmaður samtaka þeirra, Samtaka Atvinnulífsins, valdi ekki þeim og öðrum fyrirtækjum þessa lands meiri skaða með bulli sínu í fjölmiðla.


mbl.is HB Grandi hækkar laun starfsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilhjálmur Egilsson í bullandi afneitun

Hvað er þessi Vilhjálmur Egilsson framkvæmdstjóri Samtaka Atvinnulífisins að vilja uppá dekk? Ég teldi farsælast fyrir þessi ágætu samtök að finna sér annan talsmann, sem geti sagt eitthvað annað um útspil forsætisráðherra en að hún sé að leika sér. Leika sér??? Að hún sé að sverta atvinnufyrirtæki landsins??? Halló!

Hvar er dómgreind Vilhjálms? Þegar talað er um siðleysi fyrirtækja, þá er ekki endilega verið að segja að þau brjóti lög. En framkoma þeirra stingur í stúf við almennt velsæmi, og það færi óneitanlega vel á því að talsmaður Samtaka Atvinnulífsins sýndi að hann kunni með slík hugtök að fara. Auðvitað er ekkert ólöglegt við það að semja um að greiða ekki umsamdar kauphækkanir vegna efnahagsástandsins, það er bara allt í lagi, á meðan samkomulag ríkir um það. En að HB Grandi greiði á sama tíma eigendum sínum arð, það er ekki alveg í samræmi við samkomulagið við launþegana, því þá er verið að gera mun á Jóni og séra Jóni, svo einfalt er það.

Einhver ábyrgur maður innan Samtaka Atvinnulífsins þarf að kenna Vilhjálmi Egilssyni þetta. Lög er eitt, siðferði annað.

Hvað kom svo ekki á daginn? Stjórn HB Granda sá að sér og greiðir einnig út þær launahækkanir sem búið var að semja um. Það þýðir að það er allt í lagi með boðleiðirnar milli forsætisráðherra og atvinnulífsins. Það er bara talsmaður Samtaka Atvinnulífsins sem er í bullandi afneitun.

Touché!


mbl.is Atvinnurekendur reiðir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir barna verða að vera í fyrirrúmi!

Það verður að vera metnaðarmál allra borgarfulltrúa, að hagsmunir barna verði ekki bornir fyrir borð, hvernig svo sem fjárhagsvandi Reykjavíkurborgar vegna kreppunnar verður leystur.

Það á að vera skýlaus krafa að í upphafi skuli endirinn skoðaður, þegar kemur að tillögum um niðurskurð í skólastarfi og skert fjármagn til leikskóla. Menntunar- og uppeldisvægi þessara stofnana samfélagsins er trúlega besta vörnin gegn langvarandi áhrifum kreppunnar á okkur, mannfólkið. Það skýtur einnig skökku við að spara á þeim vettvangi þar sem launin eru lægst og varla hægt að auka hagkvæmni í rekstri án þess að brotin séu lög eða bitni á börnunum.

Það er lágkúrumerki á þeirri pólítík sem ekki hefur hagsmuni barna að leiðarljósi!


mbl.is Segja niðurskurð bitna á börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brotið á börnum eftir skilnað

Hér er á ferðinni brýnt mannréttindmál! Það er óþolandi að brotið sé kerfisbundið á börnum og feðrum þeirra. Hér þarf að koma til mun sterkari virðing og tillit til sjónarmiðs barna og velferðar þeirra, jafnframt því sem sjónarmiðið að báðir foreldrar taki ábyrgð á velferð barna sinna verður að vera sterkara.

Ég vek hér athygli á bloggi Sigurðar Hauks Gíslasonar um sömu frétt.

Svo geta þeir sem vilja, gúglað á hugtakið PAS - Parental Alienation Syndrom, sem bandaríski sálfræðingurinn Richard Gardner hefur skrifað um í nokkrum bókum.


mbl.is Skilnaður skaðar börnin til langs tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsækin stefna í menningarmálum

Þetta er hið besta mál og ber vitni framsýni ríkisstjórnarinnar hvað sem aðstæðum í samfélaginu líður að öðru leyti. Með því að laða til landsins erlenda kvikmyndaframleiðendur er sannanlega verið að auka gjaldeyristekjur og bæta orðspor Íslands á vettvangi kvikmyndaiðnaðar.

Eitt mætti reyndar setja að skilyrði, en það er að íslensk kvikmyndagerðarfyrirtæki og íslenskir aðilar skuli koma að endurgreiðsluhæfum verkefnum. Þá yrði þetta væntanlega til eflingar íslenskri kvikmyndagerð einnig. Vissulega er hún stöndug, hvort sem litið er til hennar sem list- eða iðngreinar, en miðað við þá vaxtasprota sem má greina í íslenskri kvikmyndagerð er sjálfsagt að auka möguleika þeirra á samvinnu við erlenda aðila. Það er góð leið til að auka þekkingu hér á landi.


mbl.is Auka endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir fyrirmynd norrænna vinstriflokka?

Sænska síðdegisblaðið Aftonbladet skrifar í leiðara í dag, mánudaginn 23 febrúar, að vinstriflokkum á Norðurlöndum væri hollt að líta til Vintri grænna á Íslandi, sem hafa afneitað óheftum kapítalisma og hyggi á velferðarmódel eftir klassísku, skandinavísku sniði. Það má greina hjá leiðarahöfundinum, Åsa Petersen, nokkurn nostalgíutón, og sennilegt að henni finnist öldin önnur og nýkapítalískari en var í Svíþjóð.

Annars geta þeir, sem vilja, nálgast leiðarann eftir þessari slóð:

http://www.aftonbladet.se/ledare/internationellt/article4478973.ab


Myndin sem sigraði!

Þetta voru skemmtileg úrslit - Viltu vinna milljarð? vann Óskarinn sem mynd ársins. Ég vísa til þess sem ég skrifaði um myndina í síðustu viku, og hvet sem fyrr alla til að sjá þessa mynd, sem er skörp ádeila á hið stéttskipta samfélag afþreyingar samtímans.

Þá var ekki síður gaman að sean Penn skyldi hljóta Óskarsverðlaun fyrir túlkun sína á Harvey Milk. Þá mynd sá ég í síðustu viku, en hún er sýnd í Háskólabíói. Penn vinnur ákaflega vel úr vel skrifuðu hlutverki Harvey Milk, hommanum sem sneri almenningsálitinu við í San Fransisco í átt til aukins umburðarlyndis og jafnréttis.

Það er nauðsynlegt að hampa slíkum myndum, sem vísa til aukins umburðarlyndis og jafnréttis.


mbl.is Viltu vinna milljarð? sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband